Velkomin á heimasíðu 

4. bekkjar

2024 - 2025

Fréttir

Minnum á útivistartímann

Útivistarreglur barna eru hér til hliðar. 

Útivistarreglurnar eru samkvæmt barnaverndarlögum. Þeim er m.a. ætlað að tryggja nægan svefn en hann er börnum og unglingum nauðsynlegur. Svefnþörfin er einstaklingsbundin en þó má ætla að börn og unglingar á grunnskólaaldri þurfi 10 tíma svefn á nóttu. Mikilvægt er að fylgja því eftir að börn og unglingar fái nægan svefn. Í því felst m.a. að ganga úr skugga um að þau séu ekki í símanum eða tölvunni þegar þau eiga að vera komin í rúmið.

Útilistaverk

Í útikennslu fórum við út í listigarð og nemendur fengu það verkefni að útbúa listaverk úr náttúrulegu efni sem þau myndu finna á jörðinni.  Þau urðu sjálf að útfæra verkið og setja það fram og láta kennara taka af því mynd. 

Hér má sjá brot af þeim verkum sem voru búin til. 




Tónleikar

Sinfóníuhljómsveit Suðurlands kom í heimsókn til okkar og hélt tónleika fyrir nemendur í 3. og 4. bekk. Þessir tónleikar eru hluti af kynningarátaki hljómsveitarinnar á klassískum tónlist fyrir nemendur grunnskóla á Suðurlandi.

Á tónleikunum kom fram 13 manna klassísk hljómsveit undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar ásamt sögumanni sem að þessu sinni var Felix Bergsson leikari. 

Aðalverk tónleikanna var tónverkið Pétur og úlfurinn eftir Sergei Prokofiev og sagði Felix Bergsson söguna með tónlistarflutningnum. Tónleikunum lauk á því að nemendur tóku lagið Það vantar spýtur með hljómsveitinni. Krakkarnir skemmtu sér konunglega á tónleikunum og við þökkum hljómsveitinni og Felix Bergssyni kærlega fyrir heimsóknina.


Göngum í skólann

Í dag hefst hið árlega verkefni Göngum í skólann sem haldið er í átjánda sinn hér á landi og Grunnskólinn í Hveragerði tekur að sjálfsögðu þátt. Því lýkur svo formlega miðvikudaginn 2. október. Árlega taka milljónir barna frá 40 löndum víðs vegar um heiminn þátt í Göngum í skólann með einum eða öðrum hætti. Megin markmið verkefnisins eru að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. Fræða þau um ávinning reglulegrar hreyfingar og að draga úr umferðarþunga, mengun og hraðakstri nálægt skólum. Auk þess er reynt að stuðla að vitundarvakningu fyrir virkum ferðamáta og umhverfismálum og það hversu “gönguvænt” umhverfið er.

Göngum í skólann er hluti af verkefninu ,,Virkar og öruggar leiðir í skólann", sem nýtur stuðnings "Go for Green" og annarra samstarfsaðila.
Verkefninu er ætlað að hvetja nemendur, foreldra og starfsmenn skóla til að ganga, hjóla, fara á línuskautum eða á annan virkan hátt til og frá skóla. Íslensk börn og fullorðnir sem taka þátt í verkefninu slást þar með í för með mörgum öðrum þjóðum heims, svo sem Áströlum, Brasilíumönnum, Kýpurbúum, Bretum, Írum, Nýsjálendingum, Svisslendingum og Bandaríkjamönnum.

Septembermánuður er ,,Göngum í skólann" mánuður.
Í septembermánuði ár hvert eru börn hvött sérstaklega til að nýta sér virkan samgöngumáta, svo sem göngu, til að ferðast til og frá skóla. Vegna aðstæðna hérlendis var ákveið af undirbúningshóp verkefnisins að hvetja skóla til að byrja verkefnið í september og ljúka því á alþjóðlega göngum í skólann deginum í byrjun október. Markmið verkefnisins eru meðal annars að:

- Hvetja til aukinnar hreyfingar með því að auka færni barna til að ganga á öruggan hátt í skólann og fræða þau um ávinning reglulegrar hreyfingar.

- Stuðla að heilbrigðum lífsstíll fyrir alla fjölskylduna, en hreyfing vinnur gegn hjartasjúkdómum, offitu og sykursýki II og stuðlar að streitulosun, betri sjálfsmynd, o.fl.

- Minnka umferð við skóla og draga þar með úr umferðarþunga, mengun og hraðakstri nálægt skólum ásamt betra og hreinna lofti og öruggari og friðsælli götum og hverfi.

 

- Stuðla að vitundarvakningu um ferðamáta og umhverfismál. Beina sjónum að því hversu ,,gönguvænt“ umhverfið er og hvar úrbóta er þörf. Auka samfélagsvitund.

 

- Auka vitund um reglur þær er lúta að öryggi á göngu og hjóli.

 

Sjá nánar hér:

http://www.gongumiskolann.is/

Árgangagöngur

Skólinn fór í sínar árlegu árgangagöngur í dag.  Veðrið var upp á sitt besta og allir nutu sín vel. 

Í ár gengum við í 4. bekk meðfram Hamrinum og yfir hann. Allir voru ánægðir með að komast upp á Hamarinn, sumir voru að fara í fyrsta sinn á meðan aðrir höfðu margsinnis farið þessa leið. Þar fengu þau fræðslu um höfuðáttirnar en þær höfum við verið að vinna með í þessari viku. Einnig fengu þau fræðslu um ísrákir sem sjást á mörgum steinum uppi á Hamri. Á heimleiðinni áttu margir erfitt með að ganga framhjá berjalyngi sem voru komin með ætileg ber svo það laumuðust ber í suma vatnsbrúsana! Það voru ánægðir en þreyttir nemenendur sem komu til baka í skólann eftir þessa göngu.

Tilkynning um upphaf skólaárs

Nemendur skólans mæti á skólasetningu miðvikudaginn 21. ágúst sem hér segir:

2.-3. bekkur kl. 09:00

4.-5. bekkur kl. 9:30

6.-7. bekkur kl. 10:00

8.-10. bekkur kl. 11:00

ATH: Nemendur 1. bekkja verða boðaðir í viðtöl með foreldrum sínum dagana 14.-15. og 19.-20 ágúst.

Frístund hefst 21. ágúst. Upplýsingar á heimasíðu Bungubrekku.

Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá fimmtudaginn 22. ágúst.

 
Skólastjóri



Skóladagatal

Skóladagatalið fyrir komandi skólaár er komið á heimasíðu grunnskólans og eins hér á þessa síðu. Endilega kíkið á það og athugið mikilvægar dagsetningar.

Skóladagatal skólaárið 2024 - 2025.


Nú liggja fyrir allar upplýsingar um umsjónarkennara fyrir næsta skólaár og má sjá þá hér í þessari frétt frá grunnskólanum:

Skilaboð frá skólastjóra til nemenda:

Til nemenda Grunnskólans í Hveragerði.

Ég vona innilega að þið eigið öll gott sumarfrí.

Hér eru þrjár reglur fyrir sumarið.


1. Verið dugleg að lesa, forvitnast og fræðast. Endilega takið þátt í sumarlestri.


2. Verið dugleg að fara út, hugsa um heilsu ykkar, andlega og líkamlega. Klæðið ykkur eftir veðri gefið tölvum og símum algert frí þegar sólin skín. Hún verður vonandi vel sjáanleg í sumar. Gular- og appelsínugular veðurviðvaranir taka sér vonandi algert frí.


3. Verið góð við mömmu ykkar og pabba og alla sem standa ykkur næst - og segið þeim reglulega að ykkur þyki vænt um þau.


Ég hlakka til að hitta ykkur á götum bæjarins og vonandi í Laugaskarði oft og iðulega. Eins hlakka ég til að hitta ykkur 21. ágúst næstkomandi á skólasetningu skólaársins 2024-2025.


Bestu kveðjur,
Sævar