Hagnýtar upplýsingar

Skráning í mat / ávexti

Öll skráning í mat, ávexti og mjólk fer fram á íbúagátt Hveragerðisbæjar

Ef börnin voru skráð þar síðasta skólaár helst skráningin inni en endilega athugið stöðu ykkar barna þar.  

Sumarlestur 2024

Skráning er hafin í Sumarlesturinn 2024!

Komið við á bókasafninu í Sunnumörk og skráið ykkur til þátttöku.

Hvernig virkar sumarlesturinn?

Lestrardagbók:
Þátttakendur fá einnig lestrardagbók til að skrá allar lesnar bækur.
Foreldrar kvitta og starfsfólk bókasafnsins límir límmiða fyrir hverja lesna bók. Á uppskeruhátíð í lok ágúst verða dregnir vinningshafa úr hópi þeirra sem skilað hafa lestrardagbókinni á bókasafnið.

Bókaumsögn:
Fyrir hverja lesna bók má fylla út bókaumsögn og skila í sérstakan póstkassa á bókasafninu. Heppnir lestrarhestar verða dregnir út í allt sumar og hljóta verðlaun.

Lestrarhetjan:
Allir þátttakendur í sumarlestri fá hefti sem inniheldur sex lestraráskoranir og skemmtilegt ofurhetjuspil. Fyrir hverja lestraráskorun fá þátttakendur límmiða til að bæta á spilaborðið. Þannig stækkar spilið með hverri lestraráskorun sem er kláruð í sumar.

Spilaborðið er mynd af Skarkalabæ en þar er allt í rugli! Það þarf að bjarga fólki og furðuverum úr bráðri hættu og það strax! Þú getur verið lestrarhetjan sem bjargar deginum með aðal ofurkraftinum, orðaforðanum! Spilarar skiptast á að vera hetjan á meðan hinir giska á hverjum/hverju lestarhetjan ætlar að bjarga á myndinni.

Uppskeruhátíð:
Í lok ágúst verður haldin uppskeruhátíð sumarlesturs. Þá fáum við góða gesti, setjum allar lestrardagbækurnar í pott og drögum út vinninga. Uppskeruhátíðin verður auglýst nánar þegar nær dregur.

 Fylgist endilega með á heimasíðu bókasafnsins og á Facebook.


Velkomin í 4. bekk:

Við erum auðvitað úti í Mjólkurbúi og það opnar alla skóladaga kl. 7:45. 

Við minnum einnig á hafragrautinn sem er ókeypis alla morgna frá kl. 8:00 - 8:20 inni í mötuneyti.


Að gefnu tilefni eru foreldrar vinsamlega beðnir að hringja ekki í börn sín í farsíma (símaúr) þeirra á skólatíma. Slíkt veldur mikilli truflun á skólastarfi.

Sé málið brýnt, vinsamlega hafið samband við skrifstofu skólans í síma 483-0800 og ritari eða skólastjórnandi kemur skilaboðum til viðkomandi nemanda. 

Vatnsbrúsar í skólann

Það er alltaf gott að börnin hafi gott aðgengi að vatni og því er gott að þau komi með vatnsbrúsa með sér í skólann því oft verða þau þyrst.


Skilaboð frá Frístundamiðstöðinni Bungubrekku 

Við minnum á að dagatal Bungubrekku er aðgengilegt á heimasíðu starfins. Þar má sjá lengdar opnanir í frístund, lokanir og frí, skipulagsdaga og skipulagskvöld, opnanir í félagsmiðstöðinni, viðburði fyrir börn og unglinga, æfingatíma hjá rafíþróttaklúbbnum og margt fleira. Slóðin á dagatal Bungubrekku er www.bungubrekka.hvg.is/dagatal-bungubrekku

Inn á heimasíðunni má einnig finna allar helstu upplýsingar um allar starfseiningar Bungubrekku. Hægt er að senda fyrirspurnir varðandi dagatalið á bungubrekka@hvg.is



Útivistartíminn

Útivistartími barna og unglinga tekur breytingum 1. maí. Frá þeim tíma mega 12 ára börn og yngri vera úti til klukkan 22.00. 13 til 16 ára unglingar mega vera úti til klukkan 24.00. Börn mega ekki vera á almannafæri utan fyrrgreinds tíma nema í fylgd með fullorðnum. Bregða má út af reglunum fyrir síðartalda hópinn þegar unglingar eru á heimleið frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Aldur miðast við fæðingarár.

FORELDRUM/FORRÁÐAMÖNNUM ER AÐ SJÁLFSÖGÐU HEIMILT AÐ STYTTA ÞENNAN TÍMA OG SETJA BÖRNUM SÍNUM REGLUR UM STYTTRI ÚTIVISTARTÍMA.

Útivistarreglurnar eru samkvæmt barnaverndarlögum. Þeim er m.a. ætlað að tryggja nægan svefn en hann er börnum og unglingum nauðsynlegur. Svefnþörfin er einstaklingsbundin en þó má ætla að börn og unglingar á grunnskólaaldri þurfi 10 tíma svefn á nóttu. Mikilvægt er að fylgja því eftir að börn og unglingar fái nægan svefn. Í því felst m.a. að ganga úr skugga um að þau séu ekki í símanum eða tölvunni þegar þau eiga að vera komin í rúmið.