Art er smart

Við erum farin að taka  ART tíma einu sinni í viku í 3. bekk. ART stendur fyrir Aggression Replacement Training og er fastmótað uppeldisfræðilegt þjálfunarmódel sem hefur það að markmiði að fyrirbyggja óæskilega hegðun og kenna aðrar leiðir til að leysa samskipta-, tilfinninga- og hegðunarvanda. 

Í ART er unnið með félagsfærni, sjálfstjórn og siðferðisvitund. Markmiðið er fyrst og fremst að gera börnunum kleift að fá meira út úr lífinu, að styrkja félagsfærni þeirra, sjálfstraust, samskipti og aðlögun í félagslegu umhverfi  Þessir þrír þættir eru meðal annars þjálfaðir með sýnikennslu, hlutverkaleik, jákvæðri styrkingu, æfingum og umræðum.

Við erum búin að taka fyrir nokkra færniþætti sem þið getið nálgast hér til hliðar svo það er um að gera að æfa þessa færni heima.


Við höfum einnig tekið fyrir reiðistjórnun og farið yfir það hvaða vísbendingar líkaminn okkar sendir okkur þegar við erum að verða reið. Einnig höfum við lært reiðidempara, þ.e. hvað getur hjálpað okkur svo við verðum ekki reið.