Fréttir úr 3. bekk

Sumarlestur 2024

Skráning er hafin í Sumarlesturinn 2024!

Komið við á bókasafninu í Sunnumörk og skráið ykkur til þátttöku.

Hvernig virkar sumarlesturinn?

Lestrardagbók:
Þátttakendur fá einnig lestrardagbók til að skrá allar lesnar bækur.
Foreldrar kvitta og starfsfólk bókasafnsins límir límmiða fyrir hverja lesna bók. Á uppskeruhátíð í lok ágúst verða dregnir vinningshafa úr hópi þeirra sem skilað hafa lestrardagbókinni á bókasafnið.

Bókaumsögn:
Fyrir hverja lesna bók má fylla út bókaumsögn og skila í sérstakan póstkassa á bókasafninu. Heppnir lestrarhestar verða dregnir út í allt sumar og hljóta verðlaun.

Lestrarhetjan:
Allir þátttakendur í sumarlestri fá hefti sem inniheldur sex lestraráskoranir og skemmtilegt ofurhetjuspil. Fyrir hverja lestraráskorun fá þátttakendur límmiða til að bæta á spilaborðið. Þannig stækkar spilið með hverri lestraráskorun sem er kláruð í sumar.

Spilaborðið er mynd af Skarkalabæ en þar er allt í rugli! Það þarf að bjarga fólki og furðuverum úr bráðri hættu og það strax! Þú getur verið lestrarhetjan sem bjargar deginum með aðal ofurkraftinum, orðaforðanum! Spilarar skiptast á að vera hetjan á meðan hinir giska á hverjum/hverju lestarhetjan ætlar að bjarga á myndinni.

Uppskeruhátíð:
Í lok ágúst verður haldin uppskeruhátíð sumarlesturs. Þá fáum við góða gesti, setjum allar lestrardagbækurnar í pott og drögum út vinninga. Uppskeruhátíðin verður auglýst nánar þegar nær dregur.

 Fylgist endilega með á heimasíðu bókasafnsins og á Facebook.


Skilaboð frá skólastjóra til nemenda:

Til nemenda Grunnskólans í Hveragerði.

Ég vona innilega að þið eigið öll gott sumarfrí.

Hér eru þrjár reglur fyrir sumarið.


1. Verið dugleg að lesa, forvitnast og fræðast. Endilega takið þátt í sumarlestri.


2. Verið dugleg að fara út, hugsa um heilsu ykkar, andlega og líkamlega. Klæðið ykkur eftir veðri gefið tölvum og símum algert frí þegar sólin skín. Hún verður vonandi vel sjáanleg í sumar. Gular- og appelsínugular veðurviðvaranir taka sér vonandi algert frí.


3. Verið góð við mömmu ykkar og pabba og alla sem standa ykkur næst - og segið þeim reglulega að ykkur þyki vænt um þau.


Ég hlakka til að hitta ykkur á götum bæjarins og vonandi í Laugaskarði oft og iðulega. Eins hlakka ég til að hitta ykkur 21. ágúst næstkomandi á skólasetningu skólaársins 2024-2025.


Bestu kveðjur,
Sævar 

Föstudagsfréttir

Hér koma síðustu föstudagsfréttir 3. bekkjar. 

Hlökkum til að hitta ykkur í foreldraviðtölunum á mánudaginn.


Skila lestrarmöppum

Síðsti kennsludagurinn í 3. bekk er framundan og því viljum við biðja ykkur um að senda grænu lestrarmöppurnar í skólann. Þar verða lestrarbækur skólans að vera í svo hægt sé að skila þeim.

Krakkarnir fóru í gær og heimsóttu bókasafnið í Sunnumörk og fengu góða kynningu á því ásamt sumarlestrinum sem verður þar í sumar. 

Því er sniðugt að kíkja þangað við tækifæri og næla sér í góða bók fyrir sumarið.


Föstudagsfréttir

Heil og sæl 

Hér til hliðar er fréttablaðið frá okkur í 3. bekk. 

Þar sem verið er að laga sundlaugina verður hún lokuð í næstu viku svo þau þurfa ekki að koma með sundföt. 

Við minnum á áheitin í tengslum við UNICEF, hægt er að styrkja þetta góða málefni hér:   https://sofnun.unicef.is/team/grunnskolinn-i-hveragerdi

Bestu kveðjur úr Mjólkurbúinu og góða helgi.


Frá hægri: Mizuna-salat, morgunfrú og flauelsblóm.

Blómin úr Grænu framtíðinni

Í gær fengu allir nemendur heim með sér blómin sem þau sáðu fyrir í vor. 

Þetta er samstarfsverkefni Grunnskólans í Hveragerði við Garðyrkjuskólann og hefur verið við lýði í  fjöldamörg ár.  Það eru nemendur á yngsta stigi skólans sem taka þátt í þessu verkefni á vorin með því að fara reglulega upp á garðyrkjuskóla. Þar sá þeir og prikkla svo sumarblómum og salalti og fá svo afraksturinn með sér heim þegar plönturnar eru tilbúnar. 

Í ár var sáð fyrir tvenns konar blómum, morgunfrú og flauelsblómi. Einnig sáðu þau fyrir mizuna-salati. 

Föstudagsfréttir

Hér koma föstudagsfréttirnar.

Minnum á að það er stutt vika í næstu viku en á mánudaginn er annar í hvítasunnu og. enginn skóli. Krakkarnir mæta því til okkar þriðjudaginn 21. maí. Ath. á skóladagatali stendur að það sé frí á þriðjudaginn en það er ekki rétt. Búið er að breyta því og því er kennsla þann dag. 

Útivistartíminn

Útivistartími barna og unglinga tekur breytingum 1. maí. Frá þeim tíma mega 12 ára börn og yngri vera úti til klukkan 22.00. 13 til 16 ára unglingar mega vera úti til klukkan 24.00. Börn mega ekki vera á almannafæri utan fyrrgreinds tíma nema í fylgd með fullorðnum. Bregða má út af reglunum fyrir síðartalda hópinn þegar unglingar eru á heimleið frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Aldur miðast við fæðingarár.

FORELDRUM/FORRÁÐAMÖNNUM ER AÐ SJÁLFSÖGÐU HEIMILT AÐ STYTTA ÞENNAN TÍMA OG SETJA BÖRNUM SÍNUM REGLUR UM STYTTRI ÚTIVISTARTÍMA.

Útivistarreglurnar eru samkvæmt barnaverndarlögum. Þeim er m.a. ætlað að tryggja nægan svefn en hann er börnum og unglingum nauðsynlegur. Svefnþörfin er einstaklingsbundin en þó má ætla að börn og unglingar á grunnskólaaldri þurfi 10 tíma svefn á nóttu. Mikilvægt er að fylgja því eftir að börn og unglingar fái nægan svefn. Í því felst m.a. að ganga úr skugga um að þau séu ekki í símanum eða tölvunni þegar þau eiga að vera komin í rúmið.Vatnsbrúsar í skólann

Þar sem við höfum ekkert mötuneyti nú í skólanum er mjög mikilvægt að börnin komi með vatnsbrúsa með sér í skólann því oft verða þau þyrst.


Geimlagið

Við vorum að læra um röðina á plánetunum í vikunni og af því tilefni lærðum við nýtt lag, Geimlagið.

Þetta lag er um himingeiminn og pláneturnar og kemur þar fram í hvaða röð þær eru. 

Margir krakkar báðu um slóðina að laginu og þið getið nálgast það hér á youtube.

Þetta lag kemur úr Stundinni okkar þegar Gói stjórnaði henni á sínum tíma. 


Skráning í foreldraviðtöl

Nú styttist í foreldraviðtölin og búið er að opna fyrir þau. Aðstandendur barnanna  eiga að sjá sjálfir um bókun í viðtölin og gera það í gegnum mentor.is.

Kerfið er í sjálfu sér nokkuð einfalt: Þið opnið Mentor appið eða farið inn á heimasíðu Mentors www.mentor.is Þið veljið hvert barn fyrir sig (ef um fleiri en eitt er að ræða) Í appinu og á heimasíðunni er grár flipi sem stendur á foreldraviðtöl og ef smellt er á hann opnast lausir tímar sem hægt er að bóka.

Í þetta sinn eru það nemendurnir sem stýra viðtölunum en við leggjum áherslu á nemendastýrð viðtöl í þessu viðtali. Nemendur eru þar að líta til baka á námið sitt og einnig að setja sér markmið fyrir vorönnina sem nú fer að hefjast.

Heimsókn frá Brunavörnum Árnessýslu

Í dag fengum við góða heimsókn frá Brunavörnum Árnessýslu. Fulltrúar þeirra komu og fræddu krakkana um brunavarnir.

Landssamband slökkviliðsmanna hefur árlega efnt til brunavarnarátaks fyrir jólin um allt Ísland og heimsækja þeir alla 3. bekki landsins í þessu átaki. 

Krakkarnir fræddust t.d. um mikilvægi þess að hafa brunavarnir í fullkomnu lagi á heimlinu sínu og svo horfðu þau á myndband um Brennuvarg sem var á vappi! 

Þau vildu sum fá slóðin að því, til að geta sýnt það heima svo hér kemur hún:  https://www.youtube.com/watch?v=JfHY7CA_v6c 

Það er því um að gera að ræða þessi mál heima fyrir og fara yfir brunavarnirnar. 


Fengum nýjan grænfána

Þann 20. nóvember, á degi mannréttinda barna 2023, fékk Grunnskólinn í Hveragerði afhentan sinn 6. Grænfána. Innilega til hamingju! Grænfáninn er viðurkenning Landverndar til skóla sem vinna að sjálfbærnimenntun á einhvern hátt.

Fulltrúar grænfánanefndar er skipuð af bæði nemendum og starfsfólki grunnskólans sem vinna saman að menntun til sjálfbærni. Skólinn okkar státar af einstaklega fallegum náttúruperlum allt um kring sem gaman er að nýta með fjölbreyttum hætti. Til dæmis fara allir árgangar reglulega í útikennslu og fræðast þannig með beinum hætti að bera virðingu fyrir náttúrunni og sínu nærumhverfi.

Ruslatínsla og flokkun er einnig fastur liður í því að halda umhverfisvitund innan skólans á lofti.

Við fórum auðvitað og tókum þátt í þessari athöfn. Þar sungum við einnig lagið sem við höfum verið að æfa okkur á undanfarið eða Myndin hennar Lisu.

Myndin hennar Lísu

Við erum að læra lag sem heitir Myndin hennar Lísu sem er eftir Olgu Guðrúnu Árnadóttur. Ætlunin er að allur skólinn syngi það saman þegar við fáum sjötta grænfánann afhentann þar 20. september næstkomandi. 

Þau vildu mörg fá slóðina til að hafa með heima svo hér til hliðar er myndbandið með textanum.


Áhugaverður hittingur í morgunsárið

Fimmtudaginn 9. nóvember fórum við út fyrir Mjólkurbúið til að sjá það þegar Venus og tunglið hittust, en þau eru skærustu fyrirbæri næturhiminsins.  Það var óvenju stutt á milli þeirra og nánast eins og þau væru að heilsa upp á hvort annað. Venus og tunglið mætast á himni í hverjum mánuði en þennan morgun var óvenju stutt á milli þeirra.  Næst mun þetta gerast eftir akkúrat mánuð en þá verður bilið milli þeirra mun meira.  Krakkarnir gátu svo séð það að Venus hvarf á bak við tunglið þegar leið á morguninn. 

Skilaboð frá Frístundamiðstöðinni Bungubrekku 

Við minnum á að dagatal Bungubrekku er aðgengilegt á heimasíðu starfins. Þar má sjá lengdar opnanir í frístund, lokanir og frí, skipulagsdaga og skipulagskvöld, opnanir í félagsmiðstöðinni, viðburði fyrir börn og unglinga, æfingatíma hjá rafíþróttaklúbbnum og margt fleira. Slóðin á dagatal Bungubrekku er www.bungubrekka.hvg.is/dagatal-bungubrekku

Inn á heimasíðunni má einnig finna allar helstu upplýsingar um allar starfseiningar Bungubrekku. Hægt er að senda fyrirspurnir varðandi dagatalið á bungubrekka@hvg.is